"Laugavegurinn"


Síðast í júlí 1992 fórum við, þrenn hjón og tveir táningar, saman í hópi og gengum "Laugaveginn", þ.e. frá Landmannalaugum til Þórsmerkur, ca. 5o km langa gönguleið, eftir vel merktum stíg.
Þetta er alveg ekta bakpokaferð, þar sem maður verður að bera sjálfur allan búnað, þ.e. tjald, mat, fatnað og annan búnað, bæði þarfan og óþarfan. Fyrir fjögurra daga ferð, eins og þessa, þá er ágætt fyrir tvo að skipta sameiginlegum búnaði á milli sín, t.d. annar tekur tjaldið og hinn eldunaráhöld og jafnvel mat beggja, eftir því, hvað tjaldið verður regnblautt á leiðinni !
Fyrsti áfanginn var frá Landmannalaugum að Hrafntinnuskeri (ca. 10km). Annar áfangi var til Álftavatns (ca. 10km). Þriðji áfangi var til Emstrubotna (ca. 15km). Og fjórði áfangi síðan til Þórsmerkur (ca. 15km).
Þetta er fremur auðveld ganga og flestum fær, en óvanir þurfa að fara nokkrar 3-4 klst. æfingaferðir með fullar klyfjar (hámark 15-20 kg, helst 11-16 kg) á bakinu, áður en lagt er af stað. Það fer þetta enginn beint upp úr sófanum í stofunni heima, það bitnar ekki síst á ferðafélögunum, ef slíkir bjartsýnisfuglar ætla að fara að flögra af stað og næsta víst að fjögurra daga áætlunin lengist talsvert.