Jökulheimar


  Helgina 24.-26. mars 2000 fór ég í góðra vina hópi í ofurjeppaferð inn á hálendi landsins okkar. Farið var á þremur vel búnum jeppum, þar sem fátt vantaði í útbúnaði og reyndir menn við stjórn. Lagt var af stað úr Reykjavík um kvöldmatarleitið á föstudeginum og komið til Hrauneyja hjá Sigöldu, þar gistum við á góðum stað, og fær hann mín bestu meðmæli. Kl. 8 morguninn eftir gerðum við árbít hússins góð skil, og lögðum síðan í'ann. Lá leið okkar gegnum virkjanasvæðið fram hjá Vatnsfellsvirkun og inn á vegslóðann til Veiðivatna og Jökulheima. Norðan Þóristinds lentum við í krapableytu. Vegpresturinn á vegmótum Veiðivatna og Jökulheima skaut kollinum upp úr snjónum, rétt eins og vorlaukarnir niðri í byggð. Klemmi gerðist þyrstur á miðri leið og hitaði vatn í te og kakó, þrátt fyrir stífan austan strekking, en svo tókst honum að festa bílinn smávegis, rétt áður en við komum að skálumun í Jökulheimum. Jökulheimar eru ca. 2-3 km vestan við Tungnaárjökul og rennur Tungnaá þar á milli suðvestur með jöklinum og áfram til Sigölduvirkjunar. Við grilluðum skaflasteik (þ.e. fjallalambalæri grillað í snjóskafli), en á meðan var hugað að réttu hitastigi á rauðvíninu. Jón gaf sig að niðurskurðinum, en við Svenni einbeittum okkur að inntökunni. Morguninn eftir vorum við vaknaðir Kl. 7 , því löng dagleið var framundan, þar sem við ætluðum áfram í norður til Hágangna og þaðan í vestur á Sprengisandsleið til byggða. Við Bláfjöll, ca. 8 km norðan við Jökulheima, er leiðin þröng milli fjalls og Tungnaár og snjóalög slík að við snérum frá og fórum upp á Bláfjöllin til þess að komast síðan norður af þeim og niður á hraunið til Hágangna. Tíminn flaug frá okkur í ýmsar þreifingar þarna uppi á fjallinu, og þar ákváðum við að snúa til baka, enda farið að þykkna í lofti og betra að fara þekkta leið heim. Gekk allt vel, og til þess að ekki hallaði á neinn, þá tókst mér að festa jeppan hans Svenna í krapa.

Forsíðan eða Til baka